RAGNHILDUR HELGADÓTTIR: FER MEÐ VÍKINGAHESTA UM TÖFRANDI REIÐLEIÐIR

Drottning að eilífu á hestbaki

Ragnhildur Helgadóttir og dóttirin Melkorka Ragnhildardóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM

„Það togar einfaldlega í mig að vinna með hesta"

28.09.2011 - 12:16
„Það hefur verið draumur minn í áraraðir að opna hestatengda ferðaþjónustu, en nú tek ég loks skrefið og vendi kvæði mínu í kross til að gera það sem mér finnst skemmtilegast,"
 
segir Ragnhildur Helgadóttir alsæl með hestum sínum á Heimsenda, þar sem hún hefur opnað ferðaþjónustuna og fjölskyldufyrirtækið Víkingahesta sem sérhæfir sig í persónulegum samskiptum við gesti, góðri þjónustu og gæðingum.

„Ég vil hlúa að gæðum og verð þess vegna með færri og betri hesta en gengur og gerist. Það skiptir máli að vera með góða hesta í stað einhverra trunta sem lulla undir fólki í fylgd með hópnum. Sumir vilja meina að það sé nauðsynlegt fyrir byrjendur, en ég er annarrar skoðunar og vil hafa hestana góða, viljuga og þægilega. Þannig sameinast maður náttúrunni yfir og allt um kring,“ segir Ragnhildur, sem veit að Víkingahestar eru góðir því þeir eru hennar eigin hross sem hún hefur þekkt frá því að þau voru folöld, hvert með sinn skemmtilega karakter.

 Í miðstöð Víkingahesta er fyrirtaksaðstaða og einnig kaffistofan Hrímfaxi, sem býður upp á girnilegar veitingar, fullbúinn bar og ýmsar hestavörur. Kaffistofan er miðstöð hestamanna í hestahverfunum í kring og oft er líf og fjör þegar skeggrætt er um hesta, menn og málefni.

„Það togar einfaldlega í mig að vinna með hesta. Í því felst kraftur og sköpun. Þetta snýst líka um að láta draum sinn rætast, vera áræðin og bjartsýn á að þetta gangi. Ég hef svo oft verið á hestbaki og fundið hversu gaman væri ef fleiri gætu upplifað dýrðina með mér. Þannig vil ég deila upplifun minni,“ segir Ragnhildur og vísar í skáldskap Einars Benediktssonar þar sem segir: „og knapinn á hestbaki er kóngur um stund“.

 „Þau orð segja allt, því það að sitja hest er ólýsanleg tilfinning og ég hef oft hugsað sem svo að ég ætli að verða drottning að eilífu á hestbaki,“ segir Ragnhildur og hlær dátt. Hjá Víkingahestum er hámarksfjöldi í hestaferðir átta en Ragnhildur segist líka fara með einn gest og allt þar á milli. Boðið verður upp á dagsferðir, sérsniðnar ferðir og lengri ferðir á sumrin, en einnig tíu vikna reiðnámskeið fyrir 10 til 15 ára börn.

„Haust og vetur er dásamlegur tími til útreiða og engu líkt að ríða út í frosti og snjó. Birtan á Íslandi breytir umhverfinu í sífellu og allar árstíðir eru heillandi í hestamennsku,“ segir Ragnhildur, sem nú býður styttri ferðir út frá Heimsenda. „Héðan er afar rómantískt að ríða út, enda guðdómlegar reiðleiðir við Elliðavatn, í Heiðmörk og víðar í túnfæti borgarinnar. Ég mun blanda saman hestamennsku við ýmislegt annað, eins og hellaskoðun í Maríuhella þar sem við setjum upp höfuðljós og gæðum okkur á heitu súkkulaði í hellinum.

 Ég vinn þetta allt eftir höfði hinnar hagsýnu húsmóður, eins og konur gera svo oft. Þannig helst í hendur að vera hagsýn og umhverfisvæn, en fyrst og fremst hlakka ég til að vinna áfram með frítíma fólks.“
 
Blaðagrein Fréttablaðið