Meistaradeildin lið Ganghestar / Málning

12.01.2012 - 10:42
Fimmta liðið sem við kynnum til leiks er lið Ganghesta /  Málningar. Þar er Sigurður Vignir Matthíasson liðsstjóri eins og áður en tveir nýir liðsmenn hafa bæst í hópinn. Aðrir liðsmenn eru Edda Rún Ragnarsdóttir, Sara Ástþórsdóttir og Valdimar Bergstað.
 
Sigurður Vignir Matthíasson, liðsstjóri, rekur alhliða hestamiðstöð, Ganghesta og Reiðskóla Reykjavíkur á Fákssvæðinu ásamt eiginkonu sinni og liðsfélaga, Eddu Rún. Sigurður hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu bæði á heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum. Hann er margfaldur heims- og Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari og mætti lengi telja áfram.

Edda Rún Ragnarsdóttir rekur eins og áður sagði hestamiðstöðina Ganghesta og Reiðskóla Reykjavíkur á félagssvæði Fáks í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum. Hún hefur stundað keppni frá blautu barnsbeini og hefur fagnað mörgum sigrinum á þeim vettvangi.  Er margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsu greinum ásamt því að hafa sigrað sigrað Landsmót tvisvar.
Sara Ástþórsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún stundar tamningar, þjálfun og ræktun að Álfhólum í Vestur-Landeyjum. Sara hefur verið að gera góða hluti í keppni og kynbótasýningum á undanförnum árum og er einn af fáum knöpum sem hefur riðið hrossi í 10,0 fyrir tölt og vilja og geðslag í kynbótadómi.

Valdimar Bergstað er úr hestamannafélaginu Fáki og hefur verið í íslenska landsliðinu á heimsmeistara- og Norðurlandamótum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari, heimsmeistari, landsmótssigurvegari ásamt mörgum öðrum stórum sigrum.
Málning var stofnuð 1953. Fyrirtækið framleiðir og selur málningu og er leiðandi á því sviði á Íslandi. Fyrirtækið hefur alla tíð lagt áherslu á vöruþróun og rannsóknir og er í samstarfi við erlenda framleiðendur eins og Jotun í Noregi og Bona Keml í Svíþjóð. Innlend vöruþróun fyrir hinar séríslensku aðstæður er samt grunnurinn að flestum vörum félagsins.

Ganghestar ehf. er alhliða hestamiðstöð þar sem boðið er upp á hefðbundna þjónustu við hestafólk, kaup og sölu á hrossum, reiðkennslu, frumtamningar og þjálfun á kynbóta- og keppnishrossum. Eigendur fyrirtækisins eru Sigurður Vignir Matthíasson og Edda Rún Ragnarsdóttir. Ganghestar ehf. er með aðsetur að Fákabóli 3 á félagssvæði Fáks og er starfsemi í gangi þar allan ársins hring. Yfir sumartímann fer þar einnig fram starfsemi Reiðskóla Reykjavíkur sem er í eigu sömu rekstaraðila.