Fréttaskýring

Skattlagðir út úr þéttbýlinu

Hesthúsin eru mikið notuð um þessar mundir en þau standa hins vegar tóm á sumrin og haustin. mbl.is/Kristinn

02.02.2012 - 10:53
Eigendur hesthúsa í Reykjavík eiga von á „glaðningi“ frá borginni. Á álagningarseðli fasteignagjalda verður meira en áttfalt hærri fasteignaskattur. Skattur á meðaleign hækkar úr rúmlega 16 þúsund í 134 þúsund á ári.
 
Ástæðan er sú að borgin telur sér skylt að skattleggja hesthús eins og iðnaðarhúsnæði en ekki íbúðarhúsnæði, frístundahús og útihús í dreifbýli, eins og verið hefur.

Þótt ekki sé búið að senda út alla álagningarseðla hafa tíðindin borist upp í Víðidal og þar kraumar óánægja. „Þetta er aðför að hestamennsku í landinu. Það er verið að skattleggja hana út úr þéttbýlinu,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga. Hann óttast að margir muni kikna undan þessari miklu hækkun, reyni að leigja frá sér húsin eða hreinlega losa sig við þau og fara út úr hestamennskunni.
Tómstundir eða atvinna

Málið á sér nokkurn aðdraganda. Sveitarfélög hafa almennt flokkað hesthús með íbúðarhúsnæði, í lægsta þrep fasteignaskatts. Í því þrepi eru einnig sumarbústaðir, jarðir og öll útihús á bújörðum.

Hesthús eru hvergi nefnd sérstaklega. Fyrir nokkrum árum áttuðu einhver sveitarfélög sig á tekjumöguleikunum og lögðu fasteignaskatt í efsta þrepi á hesthús í þéttbýli á þeirri forsendu að þar ættu heima öll þau hús sem ekki væru tilgreind í öðrum flokkum. Meginhluti hesthúsa í þéttbýli er óumdeilanlega tómstundahús og þau eiga fátt sameiginlegt með iðnaðarhúsnæði. Frekar er að flokka þau með íþróttamannvirkjum þar sem þau eru nauðsynleg til að hægt sé að stunda hestaíþróttir. Þau eru aðeins í notkun í um sex mánuði á ári og standa auð þess á milli.

Landssamband hestamannafélaga og einstök hestamannafélög hafa í nokkur ár barist gegn þessari þróun og í því sambandi meðal annars rætt við þrjá ráðherra sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga. Haraldur segir að ekki hafi fengist nein niðurstaða, menn hafi kastað málinu á milli sín. Ríkisvaldið hefði talið að frumkvæði að lagabreytingu þyrfti að koma frá sveitarfélögunum en Sambandið ekki talið slíkt í sínum verkahring en tekið fram að það myndi ekki beita sér gegn lagasetningu.

Hestamenn stóðu að kæru til yfirfasteignamatsnefndar vegna hesthúss á Selfossi en þar eru hesthúsin í hæsta þrepi fasteignaskatts. Í úrskurði nefndarinnar sem kveðinn var upp í byrjun síðasta árs var tekið undir sjónarmið sveitarfélagsins um að hesthús á deiliskipulögðu hesthúsahverfi innan þéttbýlis skuli falla undir hæsta gjaldflokk þar sem þau séu ekki talin upp í öðrum flokkum.
Mismunandi á milli bæja

Við álagningu fasteignaskatta fyrir árið 2012 ákvað Reykjavíkurborg að hækka fasteignaskatt hesthúsa úr 0,225% af fasteignamati í 1,65%. Í minnisblaði borgarlögmanns sem ákvörðunin grundvallast á kemur fram það álit að borginni sé skylt að haga álagningu fasteignaskatts í samræmi við þá túlkun sem fram kemur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vísar til þessa minnisblaðs en tekur um leið fram í svari við fyrirspurn blaðsins að athygli Alþingis yrði vakin á málinu.

Fyrir nokkrum árum kom upp deila í Garðabæ þegar bæjarstjórn færði hesthúsin í efsta gjaldflokk. Málið var leyst með því að hafa hesthúsin í lægra þrepi í þeim gjaldflokki, veita hestamönnum afslátt. Þar er fasteignaskatturinn 0,50%, innan við þriðjungur af skatti Reykjavíkur. Sömu leiðir virðast hafa verið farnar í öðrum nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins því skatturinn er 0,45% í Mosfellsbæ, 0,625% í Kópavogi og 0,63% í Hafnarfirði. Sú staða er nú uppi að hesthús eru í mismunandi gjaldflokkum, á milli sveitarfélaga og innan þeirra. Þannig eru hesthús í sumum þéttbýlissveitarfélögum með margfalt hærri skatt en hesthús í dreifbýli, innan sama sveitarfélags.
Stangast á við stjórnarskrá

Arnór Halldórsson, lögmaður Landssambands hestamannafélaga, telur að lögin stangist á við jafnréttisreglu stjórnarskrár að því leyti. Á þessu álitaefni var ekki tekið í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar. Þá er Arnór einnig ósammála túlkun nefndarinnar um að hesthús geti ekki fallið undir skilgreiningu á lægsta þrepi fasteignaskattsins. Hann telur að skera verði úr um þetta fyrir dómstólum.

„Við verðum að grípa til einhverra ráða,“ segir Haraldur Þórarinsson. „Þetta hefur ekki einungis áhrif á hestamennsku í þéttbýli heldur líka í dreifbýli. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir því að samdráttur í hestamennskunni mun hafa áhrif á margt annað.“
Fólk stendur ekki undir kostnaðinum

„Ég hef aldrei heyrt um aðra eins hækkun skatta, þetta er 750% hækkun,“ segir Ester Harðardóttir sem á hesthús í Víðidal og líkir hækkuninni við eignaupptöku. Hún hringdi í borgina til að athuga hvort fasteignaskattinum væri ekki rétt skipt á milli eigenda hesthússins og fékk þá upplýsingar um þessar miklu hækkanir. Hún greiddi í fyrra 26 þúsund krónur í fasteignaskatt fyrir sinn hluta hússins en er gert að greiða 194 þúsund í ár. Þar fyrir utan eru 90 þúsund krónur í vatns- og holræsagjald sem einnig hefur hækkað á milli ára. Mörg dæmi eru um einstaklinga sem eru með stærri hús og greiða margfalda þessa fjárhæð.

Fyrstu viðbrögð Esterar voru að óska eftir greiðsludreifingu á skattinum en það var ekki hægt þar sem umsóknarfrestur um það rann út 18. janúar þótt álagningarseðlarnir hafi enn ekki verið sendir út. „Rekstur á svona húsi er orðinn svo dýr að hann er kominn út úr korti. Venjulegt fólk stendur ekki undir þessu,“ segir Ester og vekur athygli á því að hesthúsin eru aðeins notuð hálft árið en iðnaðarhúsnæði í sama gjaldflokki sé yfirleitt í rekstri allan ársins hring. Hún bendir á að ekki megi nota hesthúsin í annað.

Þá segir hún að engin þjónusta fáist fyrir þennan skatt. Snjór hafi verið ruddur einu sinni í vetur. „Ég tel að þetta hafi slæm áhrif, eins og staðan er í þjóðfélaginu í dag. Það getur verið að fólk gefist upp á hestamennsku. Það eru margir, ekki síst ungmenni, sem leigja sér pláss. Það getur enginn leigt ef kostnaðurinn hækkar svona mikið.“
Hækkanir

» 250 hesthúsaeignir eru skráðar í Reykjavík.
» Fasteignaskattur á meðaleign verður í ár 134.185 kr. en var í fyrra 16.265 kr.
» Með breyttri gjaldflokkun aukast tekjur borgarinnar úr 4 milljónum í tæpar 34 milljónir, eða um 30 milljónir kr.
 
MBL.is