Meistaradeild 2012 Gæðingafimi á fimmtudag

06.02.2012 - 22:05
Nú á fimmtudaginn fer fram annað mót Meistaradeildar í hestaíþróttum en þá verður keppt í gæðingafimi og hefst mótið klukkan 19:30 í Ölfushöllinni. Æfingar standa yfir á fullu og má gera ráð fyrir skemmtilegri keppni á fimmtudagskvöldið og verður spennandi að sjá hver stendur efst á palli í lok kvölds.
 
Keppendur eru að byrja að skila inn upplýsingum um hrossin sín en þeir hafa æft af kappi undanfarið og hafa margar glæsisýningar sést á gólfi Ölfushallarinnar síðustu daga. Það verður gaman að fylgjast með því hvort nýr sigurvegari verði krýndur í gæðingafimi eða hvort einhver fyrrverandi sigur vegari nær í gullið en fimm keppendur í deildinni hafa sigrað þessa grein áður. Í fyrra var það Jakob S Sigurðsson, Top Reiter / Ármót, sem sigraði á Árborgu frá Miðey. Það var í annað sinn sem Jakob sigraði þessa grein í deildinni.

Gæðingafimin er mikil áskorun fyrir keppendur. Þar eru allir þættir dæmdir 
sérstaklega og síðan heildarútlit sýningarinnar. Það sem dómararnir horfa
 meðal annars á er hversu margar og erfiðar æfingar parið gerir og hvernig
 þær eru framkvæmdar, hvernig æfingarnar blandast við gangtegundir, flæði
sýningarinnar, fjölhæfni og styrkleiki gangtegunda. Knapar þurfa að sýna 
að lágmarki þrjár gangtegundir og fimm fimiæfingar og er einungis ein 
skylduæfing, en hún er opinn sniðgangur á tölti. Lengd sýningar má vera að
hámarki þrjár og hálf mínúta. Sú breyting hefur orðið á frá því í fyrra að einungis 5 knapar ríða úrslit en ekki 10.