Opið bréf til Meistaradeildar í hestaíþróttum

Meistaradeild til sölu

Jens Einarsson, ritstjóri Hestablaðsins.

Fyrir þrjátíu silfurpeninga

09.02.2012 - 10:47
Það var með nokkuri bjartsýni og eftirvæntingu sem ég beið eftir fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum 2012. Ég hafði veður af því að bæði dómarar og keppendur ætluðu að vanda sig venju fremur og hafa í heiðri grunnmarkmið góðrar reiðmennsku; að verðlauna listina, en draga niður spennureið og grodda. Sú ósk rættist að miklu leyti. Takk fyrir það.
 
Annað er ekki eins skemmtilegt. Af Meistaradeildinni leggur nú megnan 2007 fnyk. Allt virðist til sölu — fyrir þrjátíu silfurpeninga!!! Vil ég nefna nokkur atriði sem gefa til kynna að nýir húsbændur og siðir séu teknir við í Meistaradeildinni.

Auglýsing Hestablaðsins tekin niður
Hestablaðið hafði keypt pláss fyrir auglýsingaborða í Ölfuhöllinni með samningi við Guðmund Björgvinsson, staðarhaldara. Með tveggja vikna fyrirvara. Starfsmaður blaðsins, Daníel Smárason, kom á staðinn á umsömdum tíma og festi borðann upp á stað sem honum var úthlutaður. Í þann mund sem áhorfendur voru að streyma í salinn kom Kristinn Skúlason, stjórnarformaður Meistaradeildar, til Daníels og krafðist þess, án allrar kurteisi, að hann tæki borðann niður. Hann væri á stað sem hugnaðist ekki Eiðfaxa, aðal samstarfs fjölmiðli Meistaradeildar. Ekki var boðið upp á aðra kosti í stöðunni, enda engin tími til.

Aðeins fyrir útvalda
Það hefur verið venja á mótum Meistaradeildar að blaðamenn og ljósmyndarar hafa fengið aðgang að aðstöðu starfsmanna deildarinnar í hléum. Enda allt upp í fjögra til fimm tíma vinnulota og ansi hart fyrir blaðamenn og ljósmyndara að standa í biðröð til að komast að í veitingasölunni til að fá sér hressingu. Einkum þegar fullt hús er, eins og oftast er á fyrstu mótum. Að þessu sinni var undirrituðum vísað á dyr í starfsmannaaðstöðunni með þeim „vinsamlegu“ tilmælum að hún væri nú aðeins fyrir útvalda.

Okkar fólk og aðrir
Höfuðið var síðan bitið af skömminni þegar bréf barst í gær frá Kristni Skúlasyni, merkt „Blaðamenn“, sem inniheldur tilmæli. Þar þakkar hann fyrir jákvæða umfjöllun, en áréttar síðan að blaðamenn (aðrir en útvaldir) hafi til hátíðarbrigða fengið „svolítið frjálsan aðgang“ á fyrsta móti. En framvegis verði svo ekki. Aðeins útvaldir ljósmyndarar (frá Eiðfaxa) fái að vera inni á vellinum að mynda. Ekki má heldur stíga nærri tám á „okkar fólki“ eins og það er orðað í bréfinu (RÚV og Eiðfaxa), sem verða að fá að klára sín viðtöl ótruflaðir áður en aðrir komast að.

Berlusconi í Ölfushöll
Það skefur þó botninn í lágkúrunni þegar Kristinn Skúlason í bréfinu leggur blaðamönnum línur um hvernig þeir skuli vinna og við hverja þeir skuli taka viðtöl. Ég geri ráð fyrir að þetta sé allt með velvilja gert og í þeim tilgangi að auka veg Meistaradeildarinnar og hestaíþróttarinnar. En í það minnsta er framkoma og hugsunarháttur af þessu tagi afar klaufalegur og ber feigðina í sér. Því miður lítur þetta út eins og að „elíta“ knapa og fyrirtæka sé að nota Meistaradeildina til að búa til glansmynd af sjálfum sér. Áhorfið er fínt, á RÚV og á Netinu um allan heim. En verður ekki trúverðugt lengi ef ritstýra á og plotta að hætti Silvio Berlusconi.

Ég legg til við aðstendur Meistaradeildar að þeir spyrni við fótum og fari ekki inn á þá braut sem núverandi stjórn virðist vera lögð af stað inn á. Einnig er það lágmarkskrafa að allir fjölmiðlar njóti jafnræðis, en séu ekki dregnir í dilka. Trakteringar af þessu tagi eru ekki hvetjandi fyrir hestablaðamenn sem staðið hafa vaktina árum og áratugum saman, oftast við rýran kost, en af hugsjón við hestamennskuna.

Virðingarfyllst
Jens Einarsson, ritstjóri Hestablaðsins