Uppsveitadeildin 2017 - Úrslit úr fjórgangi

17.02.2017 - 22:21
 Það sannaðist í kvöld að þeir síðustu verða oft fyrstir. Í forkeppni fjórgangsins var Matthías Leó Matthíasson á Nönnu frá Leirubakka síðasti maður í braut en fékk hæstu einkunn 7.73 og skaut Hanne Oustad Smidesang á Roða frá Hala aftur fyrir sig sem hafði hrifið áhorfendur með fallegri sýningu.
 
Matthías Leó sýndi svo Nönnu frá Leirubakka af enn meira öryggi og hækkaði í A-úrslitum í 8,00 og sigraði örugglega. Þórarinn Ragnarsson á Leik frá Vesturkoti varð í 8. sæti eftir forkeppni með 6.43 og vann sér því sæti í B-úrslitum þar sem hann svo sigraði. Hann náði öðru sæti í A-úrslitum með 7,27.
 
Knapar í þriðja til fimmta sæti voru með sömu einkunn 6,60 og því þurfti að varpa hlutkesti til að skera úr um röð þeirra.  Guðjón Örn Sigurðsson á Kotru frá Steinnesi hreppti 3ja sæti, Viðja Hrund Hreggviðsdóttir á Grana  frá Langholti varð fjórða. Hanne Ousted Smidesang valdi að taka fimmta sæti.
 
Góðir gestir sóttu Uppsveitadeildina heim. Formaður Landssambands Hestamanna, Lárus Ástmar Hannesson, ásamt hluta af stjórn komu og fylgdust með keppninni. Þau voru mjög ánægð með breiddina í keppninni og hversu góð hross komu fram. Jafnframt voru þau áhugasöm um uppbygginu Reiðhallarinnar og það fjölbreytta starf sem þar fer fram.
 
Bragi Viðar Gunnarsson á Yrsu frá Túnsbergi endaði í 6. sæti með 6,77 og Sigurbjörg Bára Björnsdóttir á Byrni frá Vorsabæ II urðu 7. með 6,67 í einkunn. Sara Rut Heimisdóttir og Brák frá Stóra Vatnsskarði hlutu 8. sætið, eftir að hafa unnið hlutkesti, með 6,47. Óskar Örn Hróbjartsson vermdi 9. sætið með Frigg frá Torfunesi með 6,47 í einkunn.