Vesturlandsdeildin í hestaíþróttum

Lið Slippfélagsins og Super Jeep

06.02.2018 - 08:57
 Það fer ferskur vindur um lið Stelpnanna hjá Slippfélaginu og Super Jeep en þær eru nýliðar í deildinni þetta árið. Þó stúlkurnar séu nýliðar í þessari deild eru þær nú engar aukvisar, kjarnakvendi, reynsluboltar og ungstirni prýða þetta lið.
 
Hrefna María Ómarsdóttir er liðstjóri liðsins. Hrefna María er útskrifaður viðskiptafræðingur og starfar sem markaðsstjóri Slippfélagsins í dag. Ásamt því starfi stundar hún útreiðar og hrossarækt í frítíma með fjölskyldunni en ættarsvipur hennar leynir sér vart - hún er af Álfhólakyninu í Landeyjum en það kyn er þekkt fyrir skörungskap og mikla hæfileika bæði hjá mönnum og hrossum.
 
Hrefna er menntaður reiðkennari og tamningarmaður og hefur verið farsæl á kynbóta og keppnisbrautinni frá barnsaldri. Hún elskar svarta hesta og ef þú sérð glitta í ljóst hár bundið í fléttu á fasmiklu brúnu hrossi fara um Víðidalinn þá er það að öllum líkindum Hrefna. Hrefna María er svo heppin að eiga bestu meri í heimi og uppáhalds liturinn hennar er Paradís, bleikur litur frá Slippfélaginu því það er allt svo miklu betra í candyfloss bleiku.
 
Ylfa Guðrún Svafarsdóttir er á 18 ári og fædd og uppalin í Kópavogi. Þrátt fyrir ungan aldur þá er hún sá al iðnasti og snjallasti þjálfari sem sést hefur til á Fákssvæðinu og þó víðar væri leitað. Ylfa Guðrún er í Menntaskólanum í Kópavogi en eftir útskrift þaðan er stefnan að fara í Hólaskóla. Ylfa er Íslandsmeistari í fimmgangi og slaktaumatölti. Hún vel hestuð í vetur, þar má nefna gæðinginn Prins frá Skúfslæk, Bjarkey frá Blesastöðum og Glanna frá Hofi. Ylfa er enn ólofuð en ef þú hefur hug á að klófesta þessa blómarós þá er helsta að kíkja upp í Reiðhöllina í Víðidal því þar er hún auðvitað öll kvöld vikunnar að þjálfa hesta. Uppáhalds liturinn hennar er Draumgrár frá Slippfélaginu og hlustar hún á Njálu á hljóðbók á netinu til að sofna á kvöldin.
 
Maiju Maaria Varis er finnska drottningin í liðinu. Maiju er 25 ára gömul og hefur verið hér á landi í 6 ár sjálfsögðu vegna þess að hún dáir íslenska hestinn. Hún er útlærð, útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum og hefur starfað víða t.d. í Hrísdal hjá Siguroddi Péturssyni og starfar nú í Austurkoti við Selfoss hjá Hugrúni og Pál Braga. Einkenni Maiju í þjálfun er fágun og góð reiðmennska og af því þekkist hún í mílu fjarlægð. Hún hefur staðið sig vel i keppni en telur sig að vera rétt að byrja. Sturluð staðreynd um Maiju er að hún notar Nokia síma, á 5 Iittala vasa og drekkur sitt kaffi úr Múmínálfabolla, já hún hún heldur í ræturnar. Uppáhalds litur Maiju er Gyðjugrænn frá Slippfélaginu því ekkert hæfir þessari gyðju meir en djúp-dökkur-grænn seiðandi litur.
 
Súsanna Sand Ólafsdóttir ættu flestir að þekkja en hún er menntaður reiðkennari og þjálfari með blæðandi hestadellu á hættustigi. Hún heldur hross á húsi í hestamannafélaginu Herði Mosfellsbæ þar sem hún þjálfar gæðingana sína en þar ber helst að nefna höfðingjana Óttar frá Hvítarholti og Hyllir frá Hvítárholti sem flestir þekkja. Súsanna er einnig þekkingarsjúk en hún ferðast um heiminn og kynnir sér og æfir sig í reiðlistinni. Súsanna er virkur íþrótta-og gæðingadómari ásamt því að vera í forystu fyrir Félag Tamningamanna. Ef þið hittið Súsönnu þá er betra að þið setið upp sterkan hlífðarskjöld því hún er með ólæknandi jákvæðnissjúkdóm (já það er orð) sem smitar óhugnanlega út frá sér. Uppáhaldslitur Súsönnu er auðvitað Drottningablár frá Slippfélaginu og hefur hún leitað statt og stöðugt af hesti í þeim lit en sú leit hefur ekki enn borið árangur. Aðstoð óskast í því máli.
 
Síðasta en sko langsamlega ekki sísta kynnum við norðan kvenskörunginn Líney Maríu Hjálmarsdóttur frá Tunguháls 2 í Lýtingstaðarhrepp, eða til að staðsetja bú hennar betur þá stendur það við rætur Hofsjökuls. Þar situr þessi dugnaðarforkur ekki auðum höndum hún rekur tamningastöð og hrossaræktarbú ásamt því að reka kúabú með 30 mjólkandi kúm! Líney María er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og hefur látið mikið til sín taka á keppnis og kynbótabrautinni. Hestarnir hennar eru yfirleitt vörpulegir og fasmiklir, hún hefur einstakt lag á því að ríða hestum fram til afkasta án þess að tapa mýkt og þjálni. Líney er byrjuð að undirbúa málningarvinnu sumarsins en hún hyggst mála öll útihúsin á Tunguhálsi með málningu frá Slippfélaginu, enda velja bændur bara það besta. Lítið símasamband er á Tunguhálsi eins og gefur að skilja en ef þið þurfið að ná í konuna þá spilar hún félagsvist öll miðvikudagskvöld í safnaðarheimilinu og fer á ljóðakvöld búkolluvina af því loknu.
 
frétt/facebook síða deildarinnar