Vesturlandsdeildin

Lið Berg hrossarækt, Hrísdalshesta og Austurkots

07.02.2018 - 18:26
Kynning á sjöunda og síðasta liðinu sem skráð er til leiks í Vesturlandsdeildina 2018.
 
Hrossaræktarbúin Berg og Hrísdalur á Snæfellsnesi senda nú lið til leiks í deildina í þriðja sinn og í ár berst þeim vænn liðsstyrkur austan úr Árborg, nánar til tekið frá Austurkoti. Liðið hafnaði afgerandi í öðru sæti deildarinnar í fyrra og átti fulltrúa á topp 5 í öllum greinunum auk þess sem Siguroddur Pétursson sigraði einstaklingskeppnina. Úr liðinu er nú horfin Guðný Margrét Siguroddsdóttir en eins og áður segir koma sterk inn þau Páll Bragi Hólmarsson og Hugrún Jóhannsdóttir í Austurkoti.
 
Anna Dóra Markúsdóttir er sem fyrr liðsstjóri en hún hefur verið með í deildinni frá upphafi. Anna rekur ásamt manni sínum Jóni Bjarna eitt fremsta hrossaræktarbú landsins, Berg í Eyrarsveit. Anna Dóra þekkir hestamennskuna frá mörgum hliðum en eins og áður segir er hún mikill ræktunarmaður, var á árum áður afreksknapi í kappreiðum og á íslandsmetið í 300 metra stökki. Þá hefur hún sýnt hross úr ræktun fjölskyldunnar í kynbótadómi og mætt með þau til keppni í hringvallargreinum. Anna reið til úrslita í fimmgangi Vesturlandsdeildarinnar í fyrra.
 
Jón Bjarni Þorvarðarson starfar við ræktun og tamningar á Bergi. Jón endaði í áttunda sæti deildarinnar í fyrra en hann var fjórði fljótastur í gegnum höllina á gammnum Haka frá Bergi og stóð rétt utan við úrslit bæði í fjórgangi og fimmgangi. Þegar talið berst að hestakosti þeirra hjóna í vetur bera fæst orð minnsta ábyrgð en það má þó vera ljóst að þau verða ekki fótgangandi frekar en fyrri daginn enda nóg til af nothæfum hrossum á bænum.
 
Siguroddur Pétursson starfar við tamningar og þjálfun í Hrísdal á Snæfellsnesi. Siguroddur hefur vakið töluverða athygli á undanförnum árum með stóðhestana Hryn og Stegg frá Hrísdal en sá síðarnefndi skilaði Siguroddi langt í deildinni í fyrra þegar hann sigraði einstaklingskeppnina eftir sigur í fjórgangi og tölti auk þess að ríða til úrslita í bæði gæðingafimi og fimmgangi.
 
Páll Bragi Hólmarsson býr og starfar í Austurkoti. Hann er menntaður reiðkennari og hefur víða komið við í greininni. Hann var lengi liðsstjóri og þjálfari finnska landsliðsins og þá var hann liðsstjóri íslenska landsliðsins árið 2010 og svo aftur frá 2014-2017 auk þess sem hann hefur sjálfur tekið þátt í keppni á nokkrum Heims- og Norðurlandamótum. Páll stundar hrossarækt, þjálfar og sýnir sjálfur afrakstur ræktunarstarfsins í kynbótadómi. Þá er Páll iðinn við reiðkennslu bæði hér heima og erlendis.
 
Hugrún Jóhannsdóttir er nýjasti nýliði deildarinnar en hún kom inn í liðið á síðustu stundu vegna forfalla Ásdísar Ólafar Sigurðardóttur. Hugrún stundar hrossarækt í Austurkoti auk þess að þjálfa hross alla daga og kenna reiðmennsku hérlendis sem erlendis. Hún járnar öll hross á búinu og keyrir svo rútu í hjáverkum. Hugrún hefur keppt á heimsmeistaramóti fyrir Íslands hönd auk þess sem hún var aðstoðarliðsstjóri íslenska landsliðsins 2012-2017.