Flottur hestakostur á Ræktun

27.04.2018 - 10:12
 Nú er Ræktun 2018 að bresta á. Mikið af frábærum gæðingum eru búnir að tilkynna komu sína og lítur dagskráin vel út. 
 
Meðal atriða eru fjórir glæsi stóðhestar frá ræktunarbúinu Bergi við Grundarfjörð,afkvæmi Jarls frá Árbæjarhjáleigu mæta og Þá verða einnig fulltrúar frá ræktunarbúunum Hlemmiskeiði, Feti, Skíðbakka III og
Vesturkoti.
 
Austuráshestar koma með tvær glæsihryssur sem báðar hlutu frábæra dóma 4 vetra gamlar.Gæðingurinn Hrókur frá Hjarðartúni kemur fram í fyrsta skipti með nýjan knapa og heyrst hefur að  Siggi Sig muni koma með troðfulla hestakerru af alvöru klárhryssum,Krókus frá Dalbæ sýnir okkur af hverju hann hlaut 10 fyrir skeið og svo mæta að minnsta kosti 2 einstaklingar sem hafa unnið A og B flokk á Landsmóti.
 
Húsið í Fákaseli opnar kl 18.00 og verður boðið uppá Lambaskanka með öllu tilheyrandi,hamborgara og pizzur.
 
Miðasala fer mjög vel af stað og stefnir í frábæra stemningu í Fákaseli á laugardagskvöld. 
 
Sýningin hefst kl. 20:00 og fer forsala miða fram í Baldvin og Þorvaldi, Top Reiter og Líflandi á Hvolsvelli og Reykjavík. Einnig verður miðasala við innganginn. 
 
Tilvalið að skella sér á frábæra sýningu á mörgu af því besta sem sunnlenskir hestamenn hafa uppá að bjóða.
 
Miðaverð er kr. 3.000, frítt fyrir 12 ára og yngri.