Fjórðungsmót á Austurlandi 11. - 14. júlí.

13.05.2019 - 09:51
 Fjórðungsmót hestamanna á Austurlandi, FM2019, verður haldið á félagssvæði Hornfirðings að Fornustekkum í Nesjum, dagana 11. - 14. júlí 2019.
 
Tekin verður upp sú nýbreyttni að hafa opna gæðingakeppni á landsvísu í A- og B-flokki áhugamanna og keppni í barna-, unglinga- og ungmennaflokki. Með þessu vilja mótshaldarar stuðla að aukinni þátttöku áhugamanna og fjölskyldna þeirra.
 
Til að styrkja fjórðungsmótið enn frekar var ákveðið að bjóða hestamannafélaginu Geysi í Rangárvallarsýslu, þátttökurétt á fjórðungsmótinu, að Fornustekkum. Þar með eru öll hestamannafélög á svæðinu frá Rangárvalarsýslu og norður í Eyjafjörð, með keppnisrétt á mótinu.
 
Kynbótahrossum innan hrossaræktarsamtaka á sömu svæðum er boðin þátttaka í kynbótasýningu á mótinu, samtals 45 hross samkvæmt röð á stöðulista (4-8 hross í hverjum flokki) .
 
Keppt verður í eftirtöldum keppnisgreinum á FM2019:
Gæðingakeppni A-flokkur, (3 flokkar) FM-úrtaka, Áhugamanna- og ungmennaflokkur
Gæðingakeppni B-flokkur, (2 flokkar) FM-úrtaka og Áhugamannflokkur
Barna-, Unglinga- og Ungmennaflokkur, FM-úrtaka/Opið
Tölti (T1), Opinn flokkur
Tölt (T3) Áhugamenn 21 árs og eldri, og 20 ára og yngri
Kappreiðar: 100m fljúgandi skeiði, 350m stökk og 500m brokk
 
 
Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá: Skógeyjarútreið, grillveislu,
kvöldvöku í Stekkhól, Ræktunarbússýningar, og Sveitaball í Mánagarði.
Á félagssvæði Hornfirðings að Fornustekkum er keppnisvöllur, félagsheimili, reiðhöll með sambyggðu hesthúsi, hesthúsahverfi, tjaldstæði, beitiland fyrir ferða- og keppnishesta og frábærar útreiðarleiðir. Fornustekkar eru í ca. 8 km fjarlægð frá Höfn og öll þjónusta er til staðar, s.s. hótel, gistiheimili, tjaldstæði, úrval veitingastaða, Nettó-verslun, Lyfja, Vínbúðin, fatahreinsun, heilsugæsla, sundlaug, fjölbreytt íþróttaaðstaða og ýmis áhugaverð söfn á sviði menningar og lista.
 
 
Hestamannafélagið Hornfirðingur
 
www.hornfirdingur.is