400 íslenskir hestar í gegnum Brandenborgarhliðið

22.11.2012 - 09:59
Tæplega 400 vinir íslenska hestsins skráðu sig til þátttöku í hópreið í miðborg Berlínar, við upphaf Heimsleika íslenska hestsins sem haldnir verða á næsta ári. Sótt hefur verið um leyfi til að ríða í gegnum hið sögufræga Brandenborgarhlið.

Hópreiðin verður fyrsta dag heimsleikanna, sunnudaginn 4. ágúst. Skipuleggjendur vonast til að hestarnir muni draga að sér athygli fjölmiðla og verða þannig til að kynna mótið.

394 þátttakendur skráðu sig í hópreiðina. Flestir eru frá Þýskalandi en þó koma 25 þátttakendur frá öðrum löndum FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenska hestsins. Í þeim hópi eru Danir fjölmennastir en Íslendingar, Svíar, Austurríkismenn, Svisslendingar og Hollendingar eiga einnig sína fulltrúa.
 
mbl.is