Var of fullur til þess að stjórna hesti

Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.

09.03.2013 - 08:52
Karlmaður var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir brot á umferðarlögum og brot gegn valdstjórn þegar hann reið hesti ölvaður og meiddi lögreglumann í kjölfar mótspyrnu eftir handtöku.
 
Í dóminum kemur fram að maðurinn sat hestinn undir svo miklum áhrifum áfengis að hann gat ekki stjórnað hestinum örugglega. Þá hlýddi hann ekki fyrirmælum lögreglu um að stöðva hestinn og koma af baki hestsins.

Maðurinn var upprunalega ákærður fyrir að hafa skallað lögreglumann í andlitið með reiðhjálmi sínum en því neitaði hann.

Ákæruvaldið breytti þeim lið síðar þannig að þar stóð að hann hefði, í kjölfar mótspyrnu eftir handtöku í lögreglubifreiðinni, valdið lögreglumanninum áverkum þannig að hann hlaut eymsli yfir nefbeini og sár á vinstri nös. Maðurinn sagði þá atburðalýsingu rétta og bætti við að hann hefði aldrei neitað því.

Maðurinn játaði því þessi brot skýlaust og er það talið honum til tekna. Var því ákveðið að skilorðsbinda tveggja mánaða dóm sem hann hlaut til tveggja ára og fellur refsingin niður að þeim tíma liðnum.
 
visir.is