Meistaradeildin í hestaíþróttum

Með hvaða hesta mæta þeir?

23.01.2020 - 21:17
Fyrsta mót Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum fer fram í næstu viku, fimmtudaginn 30.janúar. Þar tefla knapar fram bestu hestum sínum í fjórgangi og spennandi verður að sjá hver mun standa uppi sem sigurvegari.
 
 Það var Árni Björn Pálsson sem sigraði fjórganginn í fyrra á Flaumi frá Sólvangi en Árni Björn mun tefla fram öðrum hesti í þetta skiptið þar sem Flaumur fór út í fyrra. Reyndar er það svo að þrír efstu hestarnir í fyrra, Flaumur, Frægur frá Strandarhöfði og Herkúles frá Ragnheiðarstöðum eru allir farnir út. Spennandi verður því að sjá ráslistana en dregið verður í beinni útsendingu á facebooksíðu Meistaradeildarinnar á þriðjudeginum kl. 20:00.

Miðasala er í fullum gangi og hægt er að tryggja sér miða inn á tix.is eða í verslun Líflands. Ársmiðahafar munu geta hlotið frábæra vinninga en dregið verður úr hverjum seldum ársmiða á slaktaumatöltsmóti Meistaradeildarinnar. Í vinning eru m.a. folatollar undir þá Kveik frá Stangarlæk, Vák frá Vatnsenda, Óskastein frá Íbishóli, Frama frá Ketilsstöðum og Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum og margt fleira.