Lið Regulator Complete/Skáney - KS Deildin

27.01.2020 - 15:36
Næsta lið sem kynnt er til leiks í deildinni tímabilið 2020 er lið Regulator Complete/Skáney.

Liðsstjóri þessa liðs er Skagfirski Húnvetningurinn Elvar Logi Friðriksson, tamningamaður. Elvar Logi náði góðum árangri á síðasta tímabili Meistaradeildar KS en hann reið úrslit í gæðingafimi og B-úrslit í fjórgangi. Elvar Logi var stigahæsti knapinn í Norðlensku deildinni síðasta vetur og hefur margoft verið stigahæstur í Húnvetnsku liðakeppninni.

Anna Herdís Sigurbjartsdóttir kemur frá Hvammstanga. Hún hefur gert það gott í keppni á heimavelli Þyts og verið ötul að keppa í yngri flokkum.

Haukur Bjarnason er reiðkennari við Háskólann á Hólum og starfar við þjálfun hrossa á Skáney Í Borgarfirði. Haukur reið A-úrslit í A-flokki á Fjórðungsmóti Vesturlands 2009 en einnig hefur hann gert það gott í Vesturlandsdeildinni þar sem hann reið úrslit í flestöllum greinum

Randi Holaker er útskrifuð sem reiðkennari við Háskólann á Hólum og starfar við þjálfun hrossa og reiðkennslu á Skáney. Randi stóð sig vel í Vesturlandsdeildinni en meðal annars sigraði hún fimmgang, lenti í öðru sæti í tölti og þriðja sæti í fjórgangi á Þyt frá Skáney.

Svavar Örn Hreiðarsson er þekktastur fyrir að fara hratt á skeiðbrautinni. Hann hefur náð góðum árangri í skeiðgreinum en sem dæmi má nefna reið hann Heklu frá Akureyri á Heimsmeistaramótinu í Hollandi árið 2017 þar sem þau enduðu í 3.sæti í 100m skeiði. Svavar keppti á Íslandsmótinu í 100m skeiði sama ár þar sem han hlaut annað sæti. Svavar var kjörinn íþróttamaður UMSE árið 2017.