Síðasta liðið sem kynnt er í Meistaradeild KS tímabilið 2020 er lið Íbishóls.

01.02.2020 - 16:07
Fátt er reynslunni fróðara en liðsstjóri þessa liðs. Það er enginn annar en Magnús Bragi Magnússon hrossaræktandi og þjálfari á Íbishóli.
 
Maggi hefur gert góða hluti á íþrótta, gæðinga -og kynbótavellinum. Sem dæmi um þá gæðinga sem Maggi hefur komið fram með er Óskasteinn og Snillingur frá Íbishóli.

Guðmar Freyr Magnússon hefur staðið sig vel á keppnisbrautinni undanfarin ár. Hann var m.a. Íslandsmeistari í unglingaflokki í 100m. skeiði 2010, 2013 og 2015 ásamt því að ríða til fjölmargra úrslita á íslandsmótum og landsmótum í yngri flokkum.

Sigurður Rúnar Pálsson er útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og starfar nú við tamningar og þjálfun í Dallandi. Siggi hefur starfað í Þýskalandi síðustu ár þar sem hann hefur gert það gott á keppnisvellinum þá helst með stóðhestinn Frama vom Hrafnsholt en einnig hefur hann riðið til fjölmargra úrslita hér á landi. Hann hefur sýnt gæðinginn Reyni frá Flugumýri með glæsibrag og riðið til úrslita á fjórðungs -og íslandsmótum.

Vera Schneiderchen er nemandi við Háskólann á Hólum. Hún hefur lengi starfað við íslenska hesta bæði Í Þýskalandi og Íslandi meðal annars á Feti, Kvíarhól og Wiesenhof. Hún hefur náð góðum árangri í keppni með hestinn sinn Brag frá Steinnesi í slaktaumatölti og fjórgangi.

Freyja Amble Gísladóttir var áberandi á keppnisvellinum á sínum yngri árum en hún er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkunum. Freyja hefur verið búsett í Noregi síðustu árin en starfar nú í Berglandi ásamt Friðgeiri Jóhannessyni.

frétt/mynd/facebooksíða deildarinnar